Forvarnir TM

Verkefni á sviði forvarna sem TM tekur virkan þátt í og/eða styrkir:

Bílpróf TM

TM býður nú forráðamönnum og nýjum ökumönnum að gera sín á milli samning um öruggari akstur og með því minnka líkur á slysum og styrkja samband ungra ökumanna og foreldra þeirra. Samningurinn felur í sér að samningsaðilar lofa hvor öðrum ýmsum atriðum sem beinast að því að styðja við gæði ökuprófsins og þar með auka öryggi í umferðinni.

Nánari upplýsingar um samning, bílpróf og fleira tengt ungum ökumönnum

Barnahjálp SÁÁ

TM styrkir Barnahjálp SÁÁ. Í maí mánuði 2013 stofnuðu SÁÁ, Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, Barnahjálp SÁÁ sem er ætlað að standa við bakið á börnum alkahólista og veita þeim þann stuðning sem þau þurfa á að halda. Markmið samtakana er að fá stjórnvöld til að viðurkenna skyldur samfélagsins gagnvart börnum sem búa við álag vegna veikinda foreldra sinna, þar með talin áfengis- og vímuefnasýki.

Eldvarnarvikan

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) er í samvinnu við TM í árlegu eldvarnarátaki. Slökkviliðsmenn leitast við að bæta eldvarnir á heimilum með Eldvarnarátakinu sem felst meðal annars í því að slökkviliðsmenn heimsækja nemendur í 3. bekk grunnskóla um land allt og fræða þá og fjölskyldur þeirra um eldvarnir heimilisins.

Heilsa sjómanna

TM hefur skipulega unnið að því að efla forvarnastarf meðal sjómanna.  Mikilvægur þáttur í því er að sjávarútvegsfyrirtæki hugi vel að heilsu starfsmanna og öðru öryggi. Meginmarkmið forvarnastarfsins er að efla þekkingu og nýja hugsun hjá stjórnendum og starfsmönnum um forvarnamál. Sonja Sif Jóhannsdóttir forvarnarfulltrúi TM framkvæmdi rannsókn um hreyfingu og mataræði sjómanna. Niðurstöður rannsóknar gefa vísbendingar um að lífsstílsíhlutanir séu árangursríkar og því mikilvægt að hafa það í huga við skipulag heilbrigðis- og forvarnarstarfs. Ætla má að bætt heilsa sjómanna dragi úr fjarvistum vegna veikinda og slysa og auki um leið öryggi þeirra en það skilar sér í minni útgjöldum fyrir alla aðila.

Heilsa sjómanna 

Krabbameinsverkefnið á Húsavík

TM er einn af styrktaraðilum forvarnarverkefnis sem felur í sér skimun fyrir ristilkrabbameini. Lionsklúbbur Húsavíkur og Heilbrigðisstofnun Þingeyinga (HÞ) standa fyrir verkefninu sem hófst árið 2012 og mun standa til ársins 2016. Verkefnið felst í því að öllum konum og karlmönnum á aldrinum 55 ára á þjónustusvæði HÞ er boðið í ókeypis ristilskoðun á því ári sem þau ná þessum aldri. Heilbrigðisstofnunin hefur séð um skipulagningu og framkvæmd speglunar en Lionsklúbburinn hefur séð um að útvega fjármagn fyrir verkefnið. Á Íslandi greinast að meðaltali 112 einstaklingar með  krabbamein í ristli og skiptir þar miklu máli að greina krabbameinið á byrjunarstigi. Því miður er ekki hafin almenn skimun fyrir ristilkrabbameini á Íslandi þrátt fyrir umræðu þess efnis. Að fimm árum liðnum stendur svo til að meta árangurinn og ákveða framhaldið. Lionsklúbburinn vildi byrja á þessu mikilvæga verkefni með það að markmiði að eftir árin fimm væri það komið til að vera.

Listin að lifa

TM er einn af aðalstyrktaraðilum heimildarmyndarinnar Listin að lifa þar sem fjallað er um mataræði og heilsu. Skoðaðar eru nokkrar leiðir til þess að borða betur og hollara og hvaða áhrif það hefur til dæmis á vinnu að vera á betra mataræði. Mikilvægi þess að hreyfa sig og hreyfa sig rétt. Hvað hentar hverjum og hvað er í boði fyrir þá sem vilja breyta venjum sínum. Þá eru tekin viðtöl við fagmenn á sviði heilsu sem og fólk sem hefur látið sig heilsu varða. Myndin verður frumsýnd fyrri hluta árs 2014 í Bíó Paradís.

Líf- og heilsa barna og foreldra

Í gegnum dótturfélag sitt TM líftryggingar hf. hefur TM frá árinu 2003 boðið viðskiptavinum sínum líf- og sjúkdómatryggingar. Sala líf- og sjúkdómatrygginga hefur frá þeim tíma aukist jafnt og þétt enda óhætt að segja að nokkur vitundarvakning hafi orðið meðal Íslendinga þegar kemur að því hvernig best megi verja sig gegn áföllum tengdum lífi og heilsu. Mikilvægum áfanga var náð á árinu þegar sett var á markað sérstök líf- og örorkutrygging fyrir börn, Barnatrygging TM. Barnafjölskyldur hafa brugðist vel við þessari nýjung og strax á fyrstu mánuðunum voru um 100 börn tryggð með barnatryggingu. Með tilkomu barnatryggingar getur TM boðið heildstæða líf- og heilsuráðgjöf fyrir alla fjölskylduna.

Lífshlaupið

Tryggingamiðstöðin tók þátt í Lífshlaupinu 2014 líkt og undanfarin fjögur ár. Lífshlaupið er átaks- og hvatningarverkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Allir starfsmenn Tryggingamiðstöðvarinnar voru skráðir til leiks og tóku þátt í vinnustaðakeppninni þar sem starfsmenn öttu kappi við aðra vinnustaði í sama stærðarflokki.   Meginmarkmið Lífshlaupsins er að hvetja landsmenn til þess að hreyfa sig og tileinka sér heilbrigða lífshætti. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.lifshlaupid.is