Grænt TM

Umhverfismál eru TM hjartans mál og hafa mörg verkefni á því sviði litið dagsins ljós á síðustu árum.

Má þar nefna samstarf TM og Grænnar framtíðar um endurnýtingu og endurvinnslu rafeindabúnaðar sem til fellur hjá TM vegna tjónamála. Samstarfið hefur staðið óslitið frá árinu 2009 og er búnaðurinn, sem annars hefði valdið umhverfisspjöllum, endurnýttur og endurunninn á umhverfisvænan hátt. Stór hluti sorps sem til fellur í daglegri starfsemi TM er flokkað og stendur til að setja félaginu umhverfisstefnu þar sem kveðið verður á um stefnu, markmið og framlag TM í umhverfismálum. 

Pappírslaus viðskipti

Sá árangur náðist innan tjónaþjónustu TM á árinu 2012 að lokið var við að gera öll samskipti vegna tjóna 100% pappírslaus. Pappírslaus viðskipti í tjónaþjónustu eru ekki aðeins hagfelld umhverfinu heldur er ávinningurinn einnig sá að þjónustan verður hraðvirkari, yfirsýn meiri og öll vistun gagna öruggari. Viðskiptavinum TM stóð til boða í fyrsta skipti í byrjun árs 2012 að eiga pappírslaus viðskipti við félagið í gegnum þjónustusíðurnar Mitt öryggi á vefslóðinni www.tm.is. Með því að eiga pappírslaus viðskipti við TM geta viðskiptavinir félagsins lagt sitt af mörkum í umhverfismálum en einnig lækkað kostnað sinn. Af þessu tilefni voru þjónustusíður í Mínu öryggi endurhannaðar með það fyrir augum að einfalda og bæta aðgengi viðskiptavina að upplýsingum sínum vegna tryggingamála.

Lægri iðgjöld vistvænna ökutækja

 Á árinu 2012 bauð TM, fyrst íslenskra tryggingafélaga, eigendum fólksbifreiða sem ganga fyrir umhverfisvænum orkugjöfum hagstæðari kjör á ökutækjatryggingum sínum. Með þessu móti vill TM leggja sitt af mörkum til að stuðla að fjölgun vistvænna ökutækja og gefa tryggingatökum kost á að samþætta umhverfissjónarmið og hagstæðari iðgjöld á ökutækjatryggingum. Vistvænt ökutæki er fólksbifreið til einkanota sem knúin er áfram af umhverfisvænum orkugjöfum. Bílar sem falla undir þá skilgreiningu eru fólksbílar þar sem orkugjafinn er eingöngu metan, bensín/metan, dísel/metan, bensín/rafmagn eða rafmagn.